26.1.2007 | 23:53
áfram skal haldið
Við fórum frá Salvador við sólarupprás síðasta mánudagsmorgun og flugum til Rio de Janeiro eða Híó eins og þeir bera það fram. Ferðin gekk vel og stelpurnar sváfu allan tímann. Þegar við lentum í Rio var skýjað og rigningarlegt en yndislegur hiti og mikill raki. Við fundum strætó og fórum á rútustöðina, læstum farangurinn okkar inni og þá vorum við til í slaginn. Við erum mjög hlynnt almennings samgöngum og tókum því strætó niður í bæ og fundum alveg geggjaðan stað til að borða á. Namm þar var eitthvað fyrir alla. Ávextir í tonnatali bæði niðurbrytjaðir og til að setja út í safa, orkuduftin í dunkum sem var hægt að fá blandað út í nýpressaða safana, samlokur og svo kílóa bar. Já við höfum aldrei sagt ykkur frá því.
Hér í Brasilíu eru út um allt staðir sem eru með hlaðborð sem er svo sem ekki í frásögur færandi en þú setur á diskinn það sem þig langar í svo er hann vigtaður í lokinn og þú borgar fyrir grömmin sem þú borðar. Alveg frábært fyrirkomulag.
Eftir matinn tókum við svo strætó og stefndum að Corcovado eða upp að Jesú styttunni. Þegar þangað kom var farið að þykkna upp og enn var rigningarlegt. Eftir nokkrar vangaveltur ákváðum við að fara samt upp og það var alveg meiriháttar. Við fengum ekki kortaútsýni því miður en styttuna sáum við aðeins í móðu ´þó en Hanna Björk sagði að núna vissum við hvernig Guð liti út! Hvorki meira né minna. Skyndilega var eins og hellt væri úr fötu og máttum við fótum okkar fjör launa til að komast í skjól. Þegar við nenntum ekki að bíða lengur hlupum við í áföngum að leigubílnum okkar aftur og Sigfús ber að ofan til að halda bolnum sínum þurrum.
Við fundum okkur gistingu sem við vorum sátt við og sváfum vel þessa nótt. Seinni daginn okkar notuðum við vel. Röltum í bænum, fórum í strætóferð og auðvitað á Copacabana ströndina. Já Copacabana. Það er nú ekki skrítið að hún sé vinsæl. Hún er með hvítum fíngerðum sandi og örugglega 500 m. á breidd. Blakvellir út um allt og mjög aðgrunn, öldur aðeins fyrir utan svo allir geta notið sín vel.
Við vorum heilluð af Rio og vildum að við hefðum haft fleiri daga þarna en völdum Salvador fram yfir því það rigndi í Rio í janúar sem aldrei fyrr. Þeir voru eiginlega ekki búnir að sjá til sólar allan mánuðinn sem annars á að vera sól og 35 stiga hiti. Við vorum heppin, 30 gr. og skýjað.
Vonandi fáum við tækifæri síðar til að skoða Rio betur!
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.